Eygló Sóley Hróðmarsdóttir Löve, Martin Ingi Sigurðsson and Freyja Jónsdóttir
Inngangur: Notkun benzódíazepín-lyfja er vaxandi og áhyggjuvaldandi. Lyfin eru ávanabindandi og hafa sterk tengsl við lyfjatengdan skaða. Notkun lyfjanna er mikil á Íslandi og óljóst hvernig langvinn notkun hefst. Áður hefur verið sýnt að hluti notkunar hefst í kjölfar skurðaðgerðar sem framkvæmd er á Landspítala.
Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á faraldsfræði benzódíazepínnotkunar í aðdraganda og kjölfar innlagna á lyflæknissvið Landspítala og tengsl við útkomur sjúklinganna.
Aðferðir: Rannsókn var afturskyggn ferilrannsókn sem náði utan um allar innlagnir sjúklinga (≥18) á Landspítalanum á árunum 2010–2020. Upplýsingar fengust úr Íslenska lyflækningagrunninum. Sjúklingum var skipt eftir notkunarmynstri benzódíazepín-útleysingar. Algengi og nýgengi benzódíazepín notkunar var mæld. Ein- og fjölbreytugreiningar voru gerðar til að meta tengsl sjúklinga- og innlagnartengdra breyta við nýja og nýja langvinna notkun.
Niðurstöður: Af 75.484 innlögnum leystu 27,3% sjúklinga út benzódíazepín-lyfseðil árið fyrir innlögn. Af þeim sem ekki höfðu leyst út benzódíazepín hófu 6,3% nýja notkun, af þeim hófu 39,4% nýja langvinna notkun. Sjúklingar sem voru kvenkyns eða lögðust inn á sérgreinar blóð-, krabbameins- eða líknarlækninga höfðu aukna hættu á nýrri notkun. Af sjúklingum sem hófu nýja notkun höfðu sjúklingar sem leystu út tvö eða fleiri mismunandi benzódíazepín, voru kvenkyns, með undirliggjandi langvinna lungnateppu eða lögðust inn á sérsviðum hjarta-, meltingar-, lungna-, öldrunar-, blóð- eða krabbameinslækninga aukna hættu á nýrri langvinnri notkun.
Umræður: Nýgengi benzódíazepínnotkunar í kjölfar innlagnar á lyflæknissvið er hátt, og rúmlega þriðjungur nýrra notenda hefja nýja langvinna notkun. Rannsóknin sýndi að nauðsynlegt sé að finna leiðir sem lágmarka notkun benzódíazepína og þróun nýrrar langvinnrar notkunar.