Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Faraldsfræði bylta hjá einstaklingum með öryggishnapp

Höfundar:
Ingibjörg Viktoría Hafsteinsdóttir, Stefán E. Hafsteinsson, Sólveig Ása Árnadóttir

Inngangur. Efla þarf rannsóknir á faraldsfræði bylta á Íslandi til að geta byggt öflugt forvarnarstarf á gögnum sem tengjast byltum landsmanna. Markmið rannsóknarinnar var að lýsa bakgrunni öryggishnappþega á Íslandi, hnappnýtingu þeirra og umfangi byltuvandans meðal hópsins.

Efniviður og aðferðir. Notuð voru fyrirliggjandi gögn um 765 einstaklinga sem höfðu verið með öryggishnapp frá Öryggismiðstöðinni í 12 mánuði samfellt með niðurgreiðslu frá Sjúkratryggingum Íslands. Gögnin voru meðal annars greind eftir byltusögu (≥ 1 bylta/ári), kyni (karlar, konur), aldurshópi (< 65 ára, 65-74 ára, 75-84 ára, ≥ 85 ára) og fjölda ICD-10 sjúkdómsgreininga. Niðurstöður. Einstaklingar í úrtakinu voru 23 til 100 ára (M = 81,7, sf = 10,03) og 73,7% þeirra voru konur. Langflestir (93,9%) voru 65 ára eða eldri. Þeir sem höfðu dottið minnst einu sinni á rannsóknarárinu voru með fleiri ICD-10 sjúkdómsgreiningar (p = 0,042) en að öðru leyti var bakgrunnur þess hóps sambærilegur bakgrunni þeirra sem duttu ekki (p = 0,185 – 0,798). Samanborið við þá sem duttu ekki var nýting öryggishnappsins meiri hjá þeim sem duttu (p < 0,001). Það hvort og hve oft hnappþegar duttu tengdist ekki kyni. Algengi bylta var svipað milli aldurshópa en fjöldi bylta/ári var meiri meðal yngsta aldurshópsins (< 65 ára) samanborið við elstu tvo hópana (75-84 ára, p = 0,017 og ≥ 85 ára, p = 0,046). Ályktanir. Niðurstöður rannsóknarinnar varpa ljósi á stöðu mála hérlendis tengt faraldsfræði bylta hjá einstaklingum með öryggishnapp og byggja undir frekari rannsóknir. Jafnframt geta niðurstöðurnar nýst við þróun úrræða til varnar byltum og alvarlegum afleiðingum bylta.

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.