Höfundar:
Ingibjörg Viktoría Hafsteinsdóttir, Stefán E. Hafsteinsson, Sólveig Ása Árnadóttir
Inngangur. Efla þarf rannsóknir á faraldsfræði bylta á Íslandi til að geta byggt öflugt forvarnarstarf á gögnum sem tengjast byltum landsmanna. Markmið rannsóknarinnar var að lýsa bakgrunni öryggishnappþega á Íslandi, hnappnýtingu þeirra og umfangi byltuvandans meðal hópsins.
Efniviður og aðferðir. Notuð voru fyrirliggjandi gögn um 765 einstaklinga sem höfðu verið með öryggishnapp frá Öryggismiðstöðinni í 12 mánuði samfellt með niðurgreiðslu frá Sjúkratryggingum Íslands. Gögnin voru meðal annars greind eftir byltusögu (≥ 1 bylta/ári), kyni (karlar, konur), aldurshópi (< 65 ára, 65-74 ára, 75-84 ára, ≥ 85 ára) og fjölda ICD-10 sjúkdómsgreininga. Niðurstöður. Einstaklingar í úrtakinu voru 23 til 100 ára (M = 81,7, sf = 10,03) og 73,7% þeirra voru konur. Langflestir (93,9%) voru 65 ára eða eldri. Þeir sem höfðu dottið minnst einu sinni á rannsóknarárinu voru með fleiri ICD-10 sjúkdómsgreiningar (p = 0,042) en að öðru leyti var bakgrunnur þess hóps sambærilegur bakgrunni þeirra sem duttu ekki (p = 0,185 – 0,798). Samanborið við þá sem duttu ekki var nýting öryggishnappsins meiri hjá þeim sem duttu (p < 0,001). Það hvort og hve oft hnappþegar duttu tengdist ekki kyni. Algengi bylta var svipað milli aldurshópa en fjöldi bylta/ári var meiri meðal yngsta aldurshópsins (< 65 ára) samanborið við elstu tvo hópana (75-84 ára, p = 0,017 og ≥ 85 ára, p = 0,046). Ályktanir. Niðurstöður rannsóknarinnar varpa ljósi á stöðu mála hérlendis tengt faraldsfræði bylta hjá einstaklingum með öryggishnapp og byggja undir frekari rannsóknir. Jafnframt geta niðurstöðurnar nýst við þróun úrræða til varnar byltum og alvarlegum afleiðingum bylta.