Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands

Fæðing andvana barns og áfallatengd svefnvandamál: Lýðgrunduð rannsókn á meðal 27.605 kvenna

Marsibil Ósk Helgadóttir, Berglind Guðmundsdóttir, Ragnheiður Bjarnadóttir, Jóhanna Gunnarsdóttir, Arna Hauksdóttir, Unnur Anna Valdimarsdóttir and Edda Björk Þórðardóttir

Markmið þessarar rannsóknar var að meta tengsl milli þess að upplifa andvana fæðingu og áfallatengds svefnvanda, en skortur er á rannsóknum á þessu sviði. Þátttakendur voru 27.605 konur (18-69 ára gamlar; meðalaldur=43,8) sem tóku þátt í rannsókninni Áfallasaga kvenna árin 2018-2019. Spurningalistinn innihélt m.a. spurningar um hvort konur höfðu upplifað andvana fæðingu og áfallatengdan svefnvanda. Af 27.605 konum í rannsókninni höfðu 772 (2,8%) upplifað andvana fæðingu. Niðurstöður benda til að konur sem höfðu upplifað andvana fæðingu væru líklegri til þess að upplifa áfallatengdan svefnvanda undangenginn mánuð en aðrar konur, eftir að leiðrétt hafði verið fyrir aldri, menntun, tekjum og atvinnustöðu (12% vs. 10%; GH (gagnlíkindahlutfall) =1,32; 95% ÖB (öryggisbil) 1,05-1,67). Þegar einstök einkenni áfallatengds svefnvanda voru skoðuð kom í ljós að konur sem höfðu upplifað andvana fæðingu voru líklegri til að greina frá skelfingu eða öskri í svefni og að bregðast líkamlega við draumum sínum, auk áfallatengdra martraða og/eða minninga en aðrar konur (p<0,05). Af þeim konum sem höfðu upplifað andvana fæðingu voru þær með áfallatengdan svefnvanda líklegri til að vera yngri (≤39 ára), einhleypar, ekki á vinnumarkaði og með lægri tekjur (p<0,05). Tengslin á milli áfallatengds svefnvanda og aldurs kvenna við andvana fæðingu, og fjöldi ára síðan andvana fæðing átti sér stað voru ómarktæk. Niðurstöður okkar gefa til kynna að konur sem upplifi andvana fæðingu séu líklegri til þess að upplifa áfallatengdan svefnvanda en aðrar konur. Mikilvægt er að skima fyrir einkennum áfallatengds svefnvanda meðal kvenna sem hafa upplifað andvana fæðingu, jafnvel mörgum árum síðar.

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.