Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Dagleg hreyfing og kyrrseta eldri Norðlendinga sem bjuggu í heimahúsum og fengu heilsueflandi heimsóknir á árunum 2013 og 2020

Höfundar:
Sólveig Ása Árnadóttir, Heiðrún Dís Stefánsdóttir, Ósk Jórunn Árnadóttir

Inngangur: Heilsueflandi heimsóknir eru einstakur vettvangur til að safna upplýsingum um lífsstíl eldri einstaklinga. Markmið rannsóknarinnar var að kortleggja hreyfingu og kyrrsetu eldra fólks sem þáði slíkar heimsóknir og greina eftir völdum bakgrunnsbreytum.

Efniviður og aðferðir: Fyrirliggjandi gögn úr heilsueflandi heimsóknum á Norðurlandi á árunum 2013 (n=353) og 2020 (n=200) með COVID-19 takmörkunum. Einstaklingarnir voru 75-96 ára (82±5,0), 56% voru konur, 48% áttu maka, 89% bjuggu í þéttbýli og 51,7% voru heimsóttir í skammdeginu. Spurningarlistinn Mat á Líkamsvirkni Aldraðra (MLA) var notaður til að kortleggja kyrrsetuathafnir og heildarhreyfingu sem skiptist í hreyfingu í tómstundum, við heimilisstörf og við vinnu. MLA-heildarstig spanna bilið 0-400+ (fleiri stig tákna meiri hreyfingu).

Niðurstöður: MLA-heildarstig einstaklinga voru á bilinu 0 til 213 (73±41,4) og 75% af heildarhreyfingu tengdist heimilisstörfum. Í heildina hreyfðu karlar sig meira en konur, dreifbýlisbúar meira en þéttbýlisbúar og heildarhreyfing var minni í skammdeginu en á birtumeiri árstíma. Heildarhreyfing var sambærileg á árunum 2013 og 2020, en árið 2020 var hreyfing í tómstundum meiri og færri unnu líkamlega erfiða vinnu. Karlar hreyfðu sig meira en konur í öllum undirflokkum MLA, og konur án maka hreyfðu sig meira í tómstundum en konur sem áttu maka. Algengustu kyrrestu-athafnirnar voru sjónvarpsáhorf, lestur, handavinna og tölvunotkun. Handavinna var algengari meðal kvenna og tölvunotkun meðal karla.

Ályktanir: Nýta má þessa þekkingu, á hreyfi- og kyrrsetuvenjum eldra fólks til umbóta í heilsueflandi þjónustu. Mikilvægt er að efla markvisst þá hópa sem eru minna líkamlega virkir, fræða um heilsueflandi hreyfingu, og tengja við áhugamál sem byggja á kyrrsetu.

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.