Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Byltur meðal einstaklinga með öryggishnapp: Orsakir, aðstæður, afleiðingar og viðbrögð

Höfundar:
Ingunn Katrín Jónsdóttir, Sólveig Ása Árnadóttir, Stefán E. Hafsteinsson

Inngangur. Markmið rannsóknarinnar var að kortleggja orsakir, aðstæður, afleiðingar og viðbrögð við byltum meðal öryggishnappþega sem duttu einu sinni eða oftar á eins árs tímabili.

Efniviður og aðferðir. Notuð voru fyrirliggjandi gögn um einstaklinga sem voru með öryggishnapp frá Öryggismiðstöðinni (ÖM) samfleytt yfir eins árs tímabil með niðurgreiðslu frá Sjúkratryggingum Íslands. Megindleg innihaldsgreining á atvikaskýrslum ÖM um byltur (N=457) var notuð til að afla gagna um byltur öryggishnappþega. Tekin voru eigindleg viðtöl við tvo öryggisverði ÖM sem sinntu útkallsboðum. Lýsandi- og ályktunartölfræði var notuð til að greina megindlegu gögnin, fyrir allan hópinn og eftir kyni og aldurshópi.

Niðurstöður. Meirihluti öryggishnappþega var 65 ára eða eldri (92,3%) en aldursbil úrtaksins var frá 41 til 97 ára (M=80,8; sf=10,0). Hlutfall kvenna var 69,8% og var bakgrunnur karla og kvenna sambærilegur (p=0,314–0,900). Einstaklingar sem duttu endurtekið yfir eins árs tímabil voru marktækt yngri (p=0,037) en þeir sem duttu einu sinni en að öðru leyti var bakgrunnur þessara tveggja hópa sambærilegur (p=0,206–0,992). Helstu orsakaþættir byltna voru lyfjanotkun (41,2%) og aðrir umhverfisþættir (23,5%). Öryggishnappþegar duttu helst á nóttunni (35,1%) og í svefnherberginu (44,6%). Áverkar á mjúkvefi (42,6%) og verkir frá stoðkerfi (32,4%) voru algengastir í kjölfar byltna. Ekki var marktækur munur á orsökum, aðstæðum eða afleiðingum milli kynja eða aldurshópa. Algengi sjúkraflutnings var 6,7% fyrir heildarúrtakið.

Ályktanir. Þessi rannsókn varpar nýju ljósi á byltur meðal öryggishnappþega og byltur í heimahúsum. Niðurstöðurnar skapa tækifæri til að byggja upp markvissari og öflugri byltuvarnir, styðja við frekari rannsóknir og ýta undir bætta skráningu á byltum.

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.