Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Buteyko öndunaræfingar sem viðbótarmeðferð við langvinnum verkjum: Áhorfsrannsókn með afturvirkan samanburðarhóp

Marta Guðjónsdóttir, Magni Grétarsson, Kristjana Jónasdóttir, Heidi Andersen and Ögmundur Bjarnason

Inngangur: Samband verkja, streitu, svefns og öndunar er flókið og margþætt og að því þarf að huga til að ná árangri í verkjameðferð. Markmið rannsóknar var að kanna ávinning Buteyko öndunaræfinga samhliða endurhæfingarmeðferð á Reykjalundi við langvinnum verkjum.
Aðferðir: Öllum sem komu í endurhæfingu hjá verkjateymi Reykjalundar á tímabilinu nóvember 2023 til febrúar 2024 var boðin þátttaka (íhlutunarhópur). Þeim voru kenndar Buteyko öndunaræfingar og notkun smáforritsins „Advanced Buteyko“. Fjöldi verkjasvæða (WPI), magn verkja (NRS) viljastýrt öndunarstopp (BHT), skilvirkni öndunar (Nijemegen spurningalistinn), andleg líðan (GAD-7 og PHQ-9), svefn (ISI) og heilsa (EQ-5D-5L, VAS) var metið fyrir og eftir 4-6 vikna endurhæfingu. Ástundun Buteyko var skráð. Til samanburðar voru gögn þeirra sem lokið höfðu verkjameðferð fyrr á árinu 2023 (samanburðarhópur).
Niðurstöður: 14 luku við íhlutunina og 44 voru í samanburðarhópi. Hóparnir voru mjög sambærilegir við upphaf meðferðar, með mikla og útbreidda verki, óskilvirka öndun, með klínískan svefnvanda og andlega vanlíðan. Öll ofangreind einkenni bötnuðu hjá báðum hópum við meðferðina (p = <0,001 – 0,004) fyrir utan þunglyndi (p = 0,051). Skilvirkni öndunar batnaði meira hjá íhlutunarhópnum (p = 0,042). Bætt skilvirkni öndunar sýndi meðalsterka fylgni við fækkun verkjapunkta (r= 0.581, p = 0,037). BHT var ekki mælt í samanburðarhópi og lengdist ekki marktækt hjá íhlutunarhópnum (p = 0,062),. Meðferðarheldni í öndunaræfingunum var 40%. Túlkun: Buteyko öndunarþjálfun hefur jákvæð áhrif á skilvirkni öndunar umfram það sem hefðbundin verkjameðferð á Reykjalundi gerir. Ákveðnar vísbendingar eru um að öndunarþjálfunin gagnist sem viðbótarmeðferð við verkjum. Lítil meðferðarheldni og stuttur meðferðartími gæti útskýrt ómarktæka hækkun á BHT.  

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.