Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands

Bein útgjöld og útgjaldabyrði heimilanna vegna heilbrigðisþjónustu

Rúnar Vilhjálmsson

Inngangur.
Bein útgjöld heimila vegna heilbrigðisþjónustu hafa áhrif á aðgengi að heilbrigðisþjónustunni. Rannsóknin athugar þróun heilbrigðisútgjaldanna og hvort einstakir samfélagshópar verji hærri upphæðum og beri þyngri útgjaldabyrðar en aðrir.
Efniviður og aðferðir.
Byggt er niðurstöðum úr heilbrigðiskönnun meðal Íslendinga 18 ára og eldri sem fram fór vorið 2023. Svarendur voru alls 5482 og heimtur tæp 50%. Niðurstöður heilbrigðiskönnunarinnar voru bornar saman við niðurstöður eldri heilbrigðiskannana meðal Íslendinga á aldrinum 18-75 ára sem fram fóru á árunum 1998, 2006 og 2015. Meðalútgjöld heimila vegna heilbrigðismála og útgjaldabyrði (hlutfall heilbrigðisútgjalda af ráðstöfunartekjum heimilis) voru borin saman milli samfélagshópa og ára.
Niðurstöður.
Sjá má samfellda raunhækkun útgjalda íslenskra heimila vegna heilbrigðismála á tímabilinu frá 1998 til 2022. Hlutfall heilbrigðisútgjalda af ráðstöfunartekjum heimilanna (útgjaldabyrði) hefur í heild ekki hækkað gegnum árin, en útgjöldunum er þó verulega misskipt milli samfélagshópa. Hæst er hlutfall heilbrigðisútgjalda af ráðstöfunartekjum á heimilum ungfullorðinna og einhleypra, á stærri heimilum og á heimilum einstæðra foreldra, einstaklinga utan vinnumarkaðar, grunnskólamenntaðra, lágtekjufólks og einstaklinga sem glíma við langvinna sjúkdóma og örorku.
Ályktanir
Þótt útgjaldabyrði íslenskra heimila vegna heilbrigðisþjónustu hafi í heild ekki hækkað á undanförnum árum er verulegur munur á útgjaldabyrðinni eftir samfélagshópum. Útgjaldahlutföll í ýmsum hópum Íslendinga eru há sem ógnað getur aðgengi að heilbrigðisþjónustunni. Í húfi er grundvallarmarkmið íslenska heilbrigðiskerfisins um sem jafnast aðgengi að þjónustunni.

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.