Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Áhrif þolþjálfunar á einstaklinga með langvinn einkenni COVID-19

Höfundar:
Marta Guðjónsdóttir, Þórdís Sigurbjörnsdóttir, Arna Elísabet Karlsdóttir, Eyþór Björnsson, Hans Jakob Beck, Karl Kristjánsson

Inngangur
COVID-19 er sjúkdómur sem getur valdið margvíslegum heilsufars vandamálum og margir sjúklingar glíma við langvinn einkenni eins og þreytu, mæði og andlega vanlíðan í kjölfarið, sem geta haft áhrif á athafnir daglegs lífs. Markmið rannsóknarinnar var að meta áhrif sex vikna endurhæfingar á þol einstaklinga sem glíma við langvinn COVID-19 einkenni með áherslu á efnaskipti, öndun og blóðrásarkerfi.
Aðferðir
Endurhæfing þátttakenda var hjá því meðferðarteymi sem best samræmdist helsta einkenni þ.e. þreyta (verkja- og gigtarteymi, n=23), mæði (hjarta- og lungnateymi, n=26) eða andleg vanlíðan (geðheilsuteymi, n=15). Allir þátttakendur fóru í blásturspróf og hámarksþolpróf fyrir og eftir þjálfun þar sem FVC, FEV1, súrefnisupptaka (V‘O2), koltvísýringsútskilnaður (V‘CO2), afl, hjartsláttartíðni, loftun (V‘E) og öndunarmynstur var mælt. Samanburður var gerður á gildum fyrra og seinna þolprófs við: a) Hámarks-áreynslu; b) V‘O2 sem var hámark á fyrra prófi (ISO-V‘O2) og c) V‘O2 sem var 75% af hámarki á fyrra prófi (ISO-75%).
Niðurstöður
Blásturspróf voru að meðaltali innan eðlilegra marka. Þol (V‘O2max og súrefnispúls) hækkaði og eins hjá öllum einkennahópum. Í ISO samanburði kom í ljós bætt öndunarmynstur, þ.e. hægari og dýpri öndun og bætt efnaskipti með lægra V‘CO2 við sama V‘O2.
Umræður
Sex vikna endurhæfing með áherslu á þolþjálfun bætir þol einstaklinga sem glíma við langvinn COVID-19 einkenni óháð þeim einkennum sem þeir finna helst fyrir. Bætt þol og skilvirkari öndun ætti að leiða til minni þreytu og mæði og gefur þannig þannig von um bætta andlega líðan og lífsgæði.

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.