Ragnheiður Maísól Sturludóttir, Sigurlaug Skírnisdóttir, Karla F. Corral-Jara, Alexandra M. Klonowski and Viggó Þór Marteinsson
Inngangur: Súrdeig er gerjað deig, búið til úr hveiti og vatni. Þrátt fyrir auknar vinsældir undanfarin ár er súrdeig ekki nýtt af nálinni, en mannkynið hefur bakað úr súrdeigi í um 6000 ár. Súrdeigsbakstur er gott dæmi um hvernig samlífi manna og örvera á sér stað í hversdagslífinu. Í þessari rannsókn, sem unnin var í þverfaglegu samstarfi ýmissa fræðigreina, var kannað hvort og hvernig breytileiki í meðhöndlun og umhverfisþáttum hjá mismunandi súrdeigsbökurum hafði áhrif á örverusamsetningu súrdeigsins sem og hver tilfinningatengsl bakaranna voru við súrdeigið sitt.
Efniviður og aðferðir: Sömu súrdeigsmóður var skipt upp á milli fimm bakara sem fóðruðu hana í sex vikur, hver á sinn hátt. Á því tímabili voru tekin þrjú sýni hjá hverjum og einum bakara af súrdeiginu, úr hveitinu og vatninu. Í framhaldi voru sýnin raðgreind og örverusamsetningin skoðuð (bæði 16S rRNA og ITS). Auk þess var tekið sýni úr upphaflegu súrdeigsmóðurinni til samanburðar. Einnig var unnið með etnógrafíska rannsókn þar sem tekin voru eigindleg viðtöl við ellefu heimasúrdeigsbakara sem höfðu bakað í þrjú ár eða lengur þar sem skoðuð voru tilfinningatengsl bakaranna við súrdeigið sitt og ástæður þess að fólk bakar sjálft úr súrdeigi.
Niðurstöður: Rannsókn á örveruflóru súrdeigsins leiddi í ljós að mismunandi meðhöndlun bakaranna á þessum sex vikum breytti samsetningu örveruflórunnar þar sem gerð hveitis var stór áhrifaþáttur. Eigindleg viðtöl leiddu í ljós að bakarar mynda marglaga og ólík tengsl við súrdeigið sitt.
Ályktanir: Umhverfi og meðhöndlun bakarans hefur áhrif á örveruflóru súrdeigsins sem er í takt við fyrri rannsóknir.