Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Áhrif snerpuþjálfunar með ljósabúnaði á jafnvægi og almenna færni hjá fólki með parkinsonsveiki

Höfundar:
Thelma Rut Hólmgeirsdóttir, Andri Sigurgeirsson, Atli Ágústsson

Inngangur: Skerðing á jafnvægi og almennri hreyfifærni eru algengir fylgikvillar parkinsonsveiki og orsakast að miklu leyti af hæghreyfingum. Tilgangur rannsóknarinnar er að kanna áhrif fjögurra vikna snerpuþjálfunar með ljósakerfi á jafnvægi og almenna hreyfifærni einstaklinga með parkinsonsveiki ásamt mat á hvetjandi eiginleikum hennar.
Aðferðir: Rannóknin er langsniðsíhlutunarrannsókn án samanburðarhóps. Sjö einstaklingar með parkinsonsveiki af undirtegundinni „akinetic-rigid” tóku þátt í rannsókninni og hlutu allir þjálfun þrisvar sinnum í viku í fjórar vikur. Þjálfunin samanstóð af fimm lotum, þar sem þátttakendur þurftu að slökkva á 20 ljósum í hverri lotu. Mælingar voru framkvæmdar einni og hálfri viku fyrir, við upphaf og við lok þjálfunar. Jafnvægi var mælt með Mini-BESTest, almenn færni með Tímamælt Upp og Gakk (TUG) , flutningsgeta með 5x Sit to Stand, gönguhraði með 10 metra gönguprófi og getan til að snúa á punktinum með 360° Turn Test. Hvetjandi eiginleikar þjálfunar voru metnir með stigagjöf á kvarðanum 0 – 10 eftir hvern tíma.
Niðurstöður: Heildarstigafjöldi á Mini-BESTest jókst marktækt yfir þjálfunartímabilið (p<.001). Þjálfunin hafði áhrif á alla undirþætti þess nema hluta I sem metur undirbúið jafnvægi. Hvorki mældist marktækur munur á TUG, 5x Sit to Stand né 10 m gönguprófi, en marktækur munur var á 360° Turn Test (p=0.013). Fjórir af sjö einstaklingum mátu þjálfunina 10 af 10 hvetjandi allt þjálfunartímabilið, hjá tveim jókst hvatningin yfir þjálfunartímabilið og hjá einum minnkaði hún. Ályktun: Fjögurra vikna snerpuþjálfun með ljósakerfi bætir jafnvægi og getuna til að snúa á punktinum hjá einstaklingum með parkinsonsveiki. Þetta þjálfunarform er mjög hvetjandi og ýtir undir þjálfunarheldni.

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.