Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Áhætta á primary biliary cholangitis meðal sjúklinga með hvatberamótefni en engin merki um sjúkdóminn

Kristján Torfi Örnólfsson, Einar Stefán Björnsson and Bjarki Leó Snorrason

Inngangur: Hvatberamótefni (e. antimitochondrial antibodies, AMA) eru til staðar hjá yfir 90-95% sjúklinga sem uppfylla greiningarskilmerki fyrir primary biliary cholangitis (PBC). Lítið er hins vegar vitað um afdrif þeirra sjúklinga sem reynast hafa slík mótefni en uppfylla þó ekki greiningarskilmerkin. Markmið rannsóknarinnar var því að nýta lýðgrunduð gögn heillar þjóðar til að varpa skýrara ljósi á afdrif þeirra sem mælast með hvatberamótefni en uppfylla ekki greiningarskilmerki PBC.

Efniviður og aðferðir: Allir sjúklingar með jákvæðar AMA mælingar á Ónæmisfræðideild Landspítala 2006-2020 voru með í rannsókninni. Kannað var hvort AMA jákvæðir sjúklingar sem ekki uppfylltu greiningarskilmerki PBC (viðvarandi hækkun á alkalískum fosfatasa eða breytingar sem samræmast PBC á lifrarsýni) kæmu til með að uppfylla þau síðar.

Niðurstöður: Alls höfðu 348 sjúklingar jákvæða AMA mælingu. Fullnægjandi gögn fundust fyrir 283 (81%) til að unnt væri að meta hvort greiningarskilmerki PBC væru þá uppfyllt. 190/283 (67%) voru þá greindir með PBC eða voru með hækkun á alkalískum fosfatasa. Fyrir þá 93 sjúklinga sem ekki uppfylltu greiningarskilmerki PBC voru fullnægjandi gögn til staðar fyrir 59 (63%) til að unnt væri að meta hvort sjúkdómurinn hefði síðar komið fram. Miðgildi eftirfylgdartímans var 4,8 ár (fjórðungaspönn 2,7 – 9,0 ár). Af þessum 59 sjúklingum reyndust 22 (37%) þróa með sér viðvarandi hækkun á alkalískum fosfatasa og voru 10 sjúklingar (17%) greindir með PBC.

Ályktun: Um fimmtungur sjúklinga sem voru með hvatberamótefni, en uppfylltu ekki greiningarskilmerki PBC í upphafi, þróaði með sér sjúkdóminn eftir u.þ.b. 5 ára eftirfylgni. Sjúklingar með hvatberamótefni og eðlileg lifrarpróf þarfnast því náinnar eftirfylgdar.

 

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.