Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Aðstandendur aldraðra sem njóta heimahjúkrunar upplifa álag í umönnunarhlutverkinu

Höfundar:
Inga Valgerður Kristinsdóttir

Inngangur: Óformlegir umönnunaraðilar gegna mikilvægu hlutverki. Það getur verið krefjandi að sinna öldruðum og umönnunarhlutverkið getur haft ýmsar afleiðingar fyrir umönnunaraðilann. Í þessari rannsókninni var upplifun umönnunaraðila í sex Evrópulöndum þ.e. Íslandi, Belgíu, Finnlandi, Hollandi, Ítalíu og Þýskalandi skoðuð og borin saman.
Efniviður og aðferðir: Gagna var safnað með interRAI – Home Care matstækinu sem lagt var fyrir slembiúrtak skjólstæðinga heimahjúkrunar 65 ára og eldri, samtímis í þátttökulöndunum (2014-2016). Um framvirka langsniðsrannsókn er að ræða. Gagnagreining er lýsandi og greinandi tölfræði notuð.
Niðurstöður: Á Íslandi er hærra hlutfall (34%) umönnunaraðila sem upplifa eitt eða fleira af þessu; áhyggjur, kvíða eða reiði, telja sig ekki geta veitt stuðning vegna heilsubrests eða eru bugaðir vegna veikinda hins aldraða. Í hinum þátttökulöndunum er hlutfallið 8-28%. Þó er það þannig að á Íslandi eru hinir öldruðu með betri líkamlega og vitræna færni en í hinum löndunum. Aðstandendur á Íslandi verja álíka mörgum klukkustundum á viku við umönnun og samanburðarlöndin en formleg aðstoð er næst minnst á Íslandi, á eftir Ítalíu. Í tvíkosta aðhvarfsgreiningu koma fram ýmsir þættir sem spá fyrir um álag tengt umönnunarhlutverkinu og voru þeir mismunandi á milli þátttökulandanna.
Ályktanir: Í suðurhluta Evrópu er hefð fyrir því að stórfjölskyldan annist um aldraðan fjölskyldumeðlim á meðan í norðurhluta álfunnar er lögð áhersla á opinbera þjónustu og íbúar þar gera ráð fyrir þeirri aðstoð. Á Íslandi vinna íbúar langan vinnudag og atvinnuþátttaka kvenna er mikil. Minni formleg aðstoð á Íslandi og menningarlegur munur gæti verið skýring á mismunandi upplifun aðstandenda á umönnunarhlutverkinu.

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.