Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

ADHD meðal fullorðinna: Samanburður á algengi núverandi einkenna árin 2005 og 2023

Daníel Olason and Þórhildur Guðjónsdóttir

Inngangur: Algengi ADHD hefur mikið verið rannsakað meðal barna og unglinga en minna meðal fullorðinna. Helsta markmið þessarar rannsóknar var að skoða algengi núverandi einkenna um ADHD meðal fullorðinna og voru niðurstöður fyrir árin 2005 og 2023 borin saman. Þar að auki voru þátttakendur árið 2023 spurðir hvort þeir hefðu einhverntímann fengið greiningu um ADHD hjá sálfræðingi eða geðlækni og þeir sem svöruðu jákvætt voru spurðir um lyfjanotkun.

Efniviður og aðferð: Þátttakendur voru Íslendingar á aldrinum 18-70 ára, valdir með slembivali úr þjóðskrá árin 2005 (n = 3.305; svarhlutfall = 69,8%) og 2023 (n = 1.640; svarhlutfall = 42,1%).

Niðurstöður: Niðurstöður sýndu umtalsverðan mun milli ára þar sem 1,6% töldust hafa núverandi einkenni um ADHD árið 2005 en hlutfallið var 8,6% árið 2023. Árið 2005 var stærstur hópurinn (0,7%) með einkenni um ríkjandi hreyfiofvirkni/hvatvísi en árið 2023 var stærsti hópurinn með einkenni um ríkjandi athyglisbrest (4,5%). Alls sögðust 13,7% þátttakenda hafa einhverntímann fengið greiningu um ADHD hjá sálfræðingi eða geðlækni árið 2023 og voru um 41% þeirra á lyfjum þegar rannsóknin var gerð.

Ályktanir: Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til verulegra breytinga á tíðni núverandi einkenna um ADHD meðal fullorðinna frá árinu 2005 en óljóst er um ástæður þess. Frekari rannsókna er því þörf þar sem einnig er tekið mið af aldri við upphaf einkenna, hömlun af völdum einkenna og útilokun annarra geðraskana sem skýringu á einkennum.

 

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.