Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Nýgengi og áhættuþættir langvinns nýrnasjúkdóms á Íslandi

Aðalhöfundur: Arnar Jan Jónsson
Vinnustaður eða stofnun: Læknadeild Háskóla Íslands, Lyflækningaþjónusta Landspítala

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Sigrún H. Lund, Læknadeild Háskóla Íslands. Bjørn O. Eriksen, Metabolic and Renal Research Group – UiT The Arctic University of Norway. Runólfur Pálsson, Læknadeild Háskóla Íslands, Lyflækningaþjónusta Landspítala, Nýrnalækningaeining Landspítala. Ólafur S. Indriðason, Lyflækningaþjónusta Landspítala, Nýrnalækningaeining Landspítala.

Inngangur: Lítið er vitað um nýgengi langvinns nýrnasjúkdóms (LNS) vegna skorts á langsniðsrannsóknum. Markmið rannsóknarinnar var að áætla nýgengi LNS á stigum 1-5, byggt á stöðluðum mælingum kreatíníns í sermi (SKr), albúmínmigu og öðrum merkjum um nýrnaskemmdir.

Efniviður og aðferðir: Við öfluðum allra SKr-mælinga, prótínmælinga í þvagi og ICD-kóða fyrir sértæka nýrnasjúkdóma og fylgisjúkdóma hjá einstaklingum ≥18 ára frá heilbrigðisstofnunum og rannsóknarstofum landsins á árunum 2008-2016. LNS var skilgreindur samkvæmt KDIGO-leiðbeiningum sem teikn um nýrnaskemmdir eða reiknaður gaukulsíunarhraði (r-GSH) <60ml/mín./1,73m2 í >3 mánuði. Nýgengi LNS var reiknað meðal einstaklinga án LNS við upphaf rannsóknar, annarsvegar samkvæmt KDIGO-skilmerkjunum og hinsvegar út frá aldursaðlöguðum gildum r-GSH. Mat á tengslum áhættuþátta við LNS var byggt á ICD-greiningarkóðum.

Niðurstöður: Alls var 1.820.990 SKr-mælinga aflað fyrir 206.727 einstaklinga sem ekki höfðu merki um LNS við upphaf rannsóknar. Miðgildi aldurs var 45 (spönn, 18-106) og 53% voru kvenkyns. Alls fengu 14.286 LNS á tímabilinu. Árlegt, aldursstaðlað nýgengi LNS á stigum 1-5 var 0,65% hjá körlum og 0,69% hjá konum. Með notkun aldursaðlögra r-GSH-gilda var nýgengi 0,48% hjá körlum og 0,52% hjá konum. Nýgengi jókst með hækkandi aldri og var yfir 3% hjá körlum og konum >75 ára. Helstu áhættuþáttir fyrir LNS voru háþrýstingur, sykursýki, hjarta-og æðasjúkdómar og saga um bráðan nýrnaskaða .

Álytkanir: Þessi rannsókn er tók til meginhluta íslensku þjóðarinnar og byggði á fjölbreyttum merkjum um nýrnaskemmdir sýndi fram á tiltölulega lágt nýgengi LNS, einkum ef notast var við aldursaðlöguð gildi r-GSH. Bráður nýrnaskaði er veigamikill áhættuþáttur ásamt sykursýki og hjarta- og æðasjúkdómum.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest

Sækja PDF

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.