Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Mengun vegna flugelda er að mestu fínt svifryk og fer langt yfir viðmiðunarmörk

Aðalhöfundur: Þröstur Þorsteinsson
Vinnustaður eða stofnun: Umhverfis- og auðlindafræði & Jarðvísindastofnun, Háskóla Íslands

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Hrund Ólöf Andradóttir, Umhverfisverkfræði, Háskóla Íslands.

Inngangur: Flugeldanotkun um áramót hefur undanfarin ár verið nokkuð til umræðu. Fyrir utan hávaða og rusl í íbúðahverfum, þá er það sérstaklega hár styrkur svifryksmengunar sem veldur áhyggjum.  Miklu magni flugelda er skotið upp um hver áramót og ef ekkert er að gert er ólíklegt að mikið dragi úr því.

Efniviður og aðferðir: Gögnin eru mælingar undanfarin áramót á svifryki á höfuðborgarsvæðinu og með agnateljurum, auk upplýsinga um veðurfar. Mælingar á fínu svifryki (PM2.5 og PM1) eru tiltölulega nýlegar, en mælingar á PM10 (grófu svifryki) ná lengra aftur.  Tölfræðigreiningar eru notaðar til að reikna breytileika í styrk og hlutfall mismunandi agnastærða.

Niðurstöður: Stór hluti svifryksmengunar um áramót er fínt svifryk (PM2.5 og PM1). Á öðrum tímum, þegar flugeldamengun er ekki ríkjandi, er hlutfall PM2.5 af PM10 um 15% og PM1 af PM2.5 um 14%. Í menguninni vegna flugelda, rétt eftir áramót, er PM2.5 allt að 88% af PM10 og PM1 allt að 84% af PM2.5. Þannig að langstærstur hluti svifryksins vegna flugelda er mjög fínt svifryk.

Ályktanir: Augljóst er að svifryksmengun vegna flugelda er veruleg og fer langt yfir viðmiðunarmörk vegna heilsu; sem einungis eru til fyrir PM10 hérlendis.  Þessi mengun er jafnvel verri en oft hefur verið talið vegna þess hversu stór hluti hennar er fínt og mjög fínt svifryk (PM2.5 og PM1), sem almennt er talið jafnvel hættulegra heilsu en gróft svifryk (PM10). Það er því nauðsynlegt að takmarka uppsprettu þessarar mengunar.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.