Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Mat á gildi fæðuskimunarlista fyrir barnshafandi konur með samanburði við þekkt lífmerki fæðuneyslu

Aðalhöfundur: Ingibjörg Gunnarsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Háskóli Íslands, Landspítali

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Ellen Alma Tryggvadóttir, Háskóli Íslands. Laufey Hrólfsdóttir, Sjúkrahúsið á Akureyri. Bryndís Eva Birgisdóttir, Háskóli Íslands. Óla Kallý Magnúsdóttir, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, Landspítali. Ingibjörg Th Hreiðarsdóttir, Landspítali. Hildur Harðardóttir, Háskóli Íslands, Livio. Petra Arohonka, Finnish Institute for Health and Welfare. Iris Erlund, Finnish Institute for Health and Welfare. Rikard Landberg, Chalmers University of Technology. Þórhallur Ingi Halldórsson, Háskóli Íslands.

Inngangur: Með fæðuskimunarlista, sem tekur 5-10 mínútur að svara, má skilgreina fæðumynstur sem tengist auknum líkum á meðgöngusykursýki. Í þessum hluta rannsóknarinnar var markmiðið að meta gildi fæðuskimunarlistans með samanburði við þekkt lífmerki fyrir fæðuneyslu.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru konur (n=1009) sem mættu í fósturskimun við 11.-14.viku meðgöngu á göngudeild fósturgreininga á Landspítala, á tímabilinu október 2017 til mars 2018. Eftirfarandi mælingar voru framkvæmdar í blóðsýnum: Plasma alkylresorcinols (lífmerki fyrir heilkornaneyslu), 25(OH)D og styrkur fitusýra í plasma (lífmerki fyrir neyslu mismunandi fitusýra). Í þvagi var mældur joðstyrkur en hann endurspeglar vel neyslu á joði, sem hérlendis fæst fyrst og fremst úr mjólkurvörum og fiski.

Niðurstöður: Miðgildi styrks alkylresorcinols var hærra meðal kvenna sem skráðu neyslu tveggja skammta af heilkorni daglega, samanborið við konur sem sögðust neyta heilkorna sjaldnar (330 nmol/L mv. 187 nmol/L, p<0.0001). Fylgni sást á milli skráðrar tíðni notkunar D-vítamínbætiefna og styrks 25(OH)D í blóði (r=0.34, p<0.001). Jafnframt sást fylgni milli skráðrar neyslu af feitum fiski, lýsi og omega-3 bætiefnum og styrks viðeigandi fitusýra í plasma (p<0,001). Miðgildi joðstyrks í þvagi jókst með hækkandi tíðni mjólkurvöruneyslu, frá 55µg/L hjá þeim hópi kvenna sem sagðist neyta mjólkurvara ≤1 sinni í viku upp í 124µg g/L í þeim hópi sem sagðist neyta mjólkurvara ≥2 sinnum á dag (p gildi fyrir línuleg samhengi <0.001).

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til að svör kvenna við fæðuskimunarlistanum endurspegli vel raunverulega neyslu fæðutegunda sem fyrri rannsóknir benda til að tengist líkum á meðgöngusykursýki. Til stendur að innleiða fæðuskimunarlistann í Heilsuveru til notkunar í klínísku starfi.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest

Sækja PDF

Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.