Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Lífvöktun eiturefna – magngreining þrávirkra flúorefna og akrýlamíðs í ungum Íslendingum í tengslum við mataræði

Aðalhöfundur: Rannveig Ósk Jónsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Ása Valgerður Eiríksdóttir, Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði. Kristín Ólafsdóttir, Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði. Þórhallur Ingi Halldórsson, Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands.

Inngangur: Lífvöktun í Evrópu (e. Human biomonitoring for Europe, HBM4EU) er fimm ára langt samvinnuverkefni 28 landa innan Evrópu. Tilgangur þess er að mæla ýmis efni sem talin eru hafa skaðleg áhrif á heilsu almennings. Á Íslandi voru meðal annars mæld akrýlamíð í þvagi og perflúoruð alkýlefni (PFAS) í sermi ungra fullorðinna Íslendinga. Akrýlamíð er þekkt taugaskemmandi og krabbameinsvaldandi efni og PFAS eru þrávirk efni sem talin eru geta haft áhrif á hormónajafnvægi, ónæmiskerfið og taugaþroska barna.

Efniviður og aðferðir: Um 200 einstaklingar voru valdir af handahófi á aldrinum 20-39 ára sem veittu þvag (og blóðsýni). Mælingarnar voru gerðar samhliða næringar- og mataræðiskönnun Landslæknis 2019-2020 og með því móti fengust upplýsingar um mataræði sem getur haft áhrif á magn þessara þátta hjá einstaklingum. Einnig var gerð könnun þar sem spurt var út í aðra þætti sem talið er að hafi áhrif á magn PFAS og akrýlamíðs í blóði.

Niðurstöður: Niðurstöður PFAS mælinga sýna að svipað magn finnst hjá Íslendingum og hjá öðrum evrópskum þjóðum. Eingöngu 2% af 100 einstaklingum höfðu hærra magn af samanlögðum PFOS, PFOA, PFNA og PFHxS efnum en ráðlagt er af EFSA. Af 18 mældum PFAS efnum voru 5 ekki í mælanlegu magni í sýnunum. Niðurstöður akrýlamíð mælinga sýna svipað magn hjá konum og körlum og eru þau nokkuð há gildi. Tvisvar sinnum hærra magn fannst hjá reykingarfólki.

Ályktanir: Hvorki PFAS efni né akrýlamíð hafa verið mæld í Íslendingum áður og því mun þessi rannsókn gefa tækifæri til að meta útsetningu Íslendinga fyrir þessum varhugaverðu efnum í fyrsta sinn.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.