Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Hvers vegna fylgja barnshafandi konur ekki ráðleggingum um neyslu helstu joðgjafa fæðunnar? Megindleg forrannsókn

Aðalhöfundur: Þórdís Björg Kristjánsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Háskóli Íslands, Heilbrigðisvísindasvið, Hjúkrunarfræðideild, Námsbraut í ljósmóðurfræði; Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Ingibjörg Gunnarsdóttir, Háskóli Íslands, Heilbrigðisvísindasvið, Matvæla- og næringarfræðideild. Berglind Hálfdánsdóttir, Háskóli Íslands, Heilbrigðisvísindasvið, Hjúkrunarfræðideild, Námsbraut í ljósmóðurfræði.

Inngangur: Joð er mikilvægt fyrir eðlilegan vöxt, þroska og efnaskipti fósturs. Á Íslandi greindist joðskortur í fyrsta skipti árið 2019 og það meðal barnshafandi kvenna, líklega vegna minnkaðrar neyslu á fiski og mjólk. Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvers vegna barnshafandi konur neyta ekki fæðutegunda sem eru mikilvægar joðuppsprettur.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknarsniðið var megindleg forrannsókn með þversniði. Barnshafandi konur (n=100) svöruðu spurningalista í símaviðtali þar sem spurt var um neyslu á joðríkum fæðutegundum og bætiefnum. Niðurstöðurnar voru bornar saman við ráðleggingar Embættis landlæknis um neyslu á mjólkurvörum og fiski. Gögnin voru greind með lýsandi tölfræði.

Niðurstöður: Hlutfall kvenna sem sagðist aldrei neyta mjólkurvara var 13% og aðeins 27% þeirra neyttu ráðlagðra tveggja skammta á dag eða meira. Ýmsar skýringar voru gefnar, til dæmis sögðust 14% kvenna ekki finnast mjólkurvörur góðar en 24% gáfu enga skýringu. Hlutfall kvenna sem sagðist aldrei borða fisk var 9% og einungis 29% borða fisk tvisvar í viku eða oftar. Ástæður fyrir því að fylgja ekki ráðleggingum um fiskneyslu voru fjölbreyttar en 10% kvenna finnst fiskur ekki góður og 18% sögðust ekki hafa neina skýringu. Þrátt fyrir að 97% kvenna tækju fæðubótarefni tóku aðeins 7% þeirra fæðubótarefni sem innihélt joð.

Ályktanir: Niðurstöður benda til þess að gjarnan liggi engin sérstök ástæða að baki því að konur neyti minna af joðríkum fæðutegundum en ráðlagt er. Því er mikilvægt að koma upplýsingum um mikilvægi joðríkrar fæðu til kvenna í mæðravernd. Einnig er mikilvægt að hefja fræðslu fyrr og veita góðar upplýsingar til ungra stúlkna.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.