Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Ferlihjálpartæki barna með hreyfihamlanir. Notkun, ánægja og áhrif

Aðalhöfundur: Svandís Björk Guðmundsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Námsbraut í sjúkraþjálfun, Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands

Meðhöfundur, stofnun eða fyrirtæki:
Þjóðbjörg Guðjónsdóttir (flytjandi), Námsbraut í sjúkraþjálfun, Heilbrigðisvísindasvið, Háskóli Íslands.

Inngangur: Ferlihjálpartæki, t.d. göngugrindur og hjólastólar, eru algeng fyrir börn með hreyfihamlanir og draga úr áhrifum hindrana í umhverfi við þátttöku þeirra. Fáar rannsóknir eru til um notkun og áhrif þeirra á þátttöku sem og ánægju barna og fjölskyldna þeirra með hjálpartæki og þjónustu tengda þeim. Markmið rannsóknar var að kanna notkun og áhrif ferlihjálpartækja meðal barna með hreyfihamlanir ásamt því að meta ánægju þessara barna og fjölskyldna þeirra með tækin og þjónustu tengda þeim.

Efniviður og aðferð: Rafræn könnun var send til foreldra barna með hreyfihamlanir. Börnin voru 6-18 ára og notuðust við ferlihjálpartæki. Spurningalisti var þróaður fyrir þessa rannsókn til þess að meta notkun og áhrif ferlihjálpartækja. Ánægja með eiginleika ferlihjálpartækja og þjónustu í tengslum við þau var mæld með Quebec user evaluation of satisfaction with assistive technology (QUEST) 2.0-spurningalistanum.

Niðurstöður: Svarhlutfall var 65,6% (n=36). Meirihluti barnanna notaði ferlihjálpartæki í aðstæðum í tengslum við skóla og í félagslegum aðstæðum. Ferlihjálpartækin höfðu að mestu leyti jákvæð áhrif á athafnir og þátttöku barnanna, neikvæð áhrif voru minniháttar. Ekki var marktækur munur á ánægju eftir gerð ferlihjálpartækis. Munur á ánægju þátttakenda með eiginleika ferlihjálpartækis annars vegar og þjónustuna hins vegar var ekki marktækur, óháð gerð hjálpartækis. Meirihluti þátttakenda var ánægður með stærð, öryggi og gagnsemi ferlihjálpartækja en flestir voru óánægðir með þyngd og stillingar. Flestir voru ánægðir með þjónustuna, nema eftirfylgni.

Ályktanir: Niðurstöðurnar eru leiðbeinandi um hvaða þætti má breyta í þjónustu vegna hjálpartækja og einnig gefa þær vísbendingar um hvaða þættir geta haft áhrif á notkun þeirra.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest

Sækja PDF

Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.