Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Eldra fólkið í heimsfaraldri: Komur 67 ára og eldri á bráðamóttöku Landspítala 2020 og 2019

Aðalhöfundur: Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Rannsóknastofu Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum, Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Ingibjörg Sigurþórsdóttir, Bráðamóttöku Landspítala. Elísabet Guðmundsdóttir, Hagdeild Landspítala.

Inngangur: Árin 2008-12 fjölgaði komum 67 ára og eldri á bráðamóttökur Landspítala í takt við lýðfræði og voru um 20% allra koma. Alþjóðlega er talin ástæða til að auka þekkingu um aldraða á bráðamóttökum til að veita viðeigandi þjónustu. Heimsfaraldur og samfélagslegar aðgerðir í kjölfarið höfðu mögulega áhrif á notkun aldraðra á bráðri heilbrigðisþjónustu.

Efniviður og aðferðir: Gagna aflað úr vöruhúsi gagna um komur 67 ára og eldri á bráðamóttökur Landspítala frá byrjun 2019 til loka 2020. Könnuð var breyting á komufjölda og hlutfalli mismunandi aldurshópa, komuástæða og útkoma eftir mánuðum milli ára auk mismunar milli karla og kvenna. Notuð Poisson aðhvarfsgreining m.t.t. fjölda innlagna, aldurssamsetningar og mannfjölda.

Niðurstöður: Komum fækkaði í rannsóknarhópnum um 2.600 og innlögnum af bráðamóttöku um ca. 200, hlutfall innlagna hækkaði. Komum fækkaði um 16,5% hjá konum en 16,0% hjá körlum milli ára; aldursleiðrétt 19% fyrir bæði kyn. Mest var fækkunin í mars og apríl eða um 34% og í október um 23%. Fækkun koma kom fram í öllum sjúkdómayfirflokkum ICD-10, en mest í yfirflokkum I (blóðráðsarkerfi), J (öndunarfærum) og M (vöðva- og beinakerfi, bandvef).

Ályktanir: Covid-19 heimsfaraldurinn hafði áhrif á bráðar komur aldraðra á Landspítala og þá sérstaklega þegar fjöldi smita var sem hæstur í samfélaginu. Vísbendingar eru um færri komur vegna hjarta- og æðasjúkdóma víðar í heiminum. Færri smitleiðir milli fólks og minni samfélagsleg virkni gætu skýrt færri komur vegna öndunfærasjúkdóma og stoðkerfisvanda. Greina mætti nánar áhrif lífstílsbreytinga á bráð vandamál eldra fólks en einnig hvort önnur úrræði hafi komið í stað þjónustu bráðamóttöku.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest

Sækja PDF

Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.