Aðalhöfundur: Arna Skúladóttir
Vinnustaður eða stofnun: Kvenna- og barnaþjónusta Landspítala, Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands
Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Anna Ólafía Sigurðardóttir sérfræðingur í hjúkrun (Landspítali) og klínískur dósent (Háskóli Íslands), Kvenna- og barnaþjónusta Landspítala, Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands. Erla Kolbrún Svavarsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild HÍ og forstöðumaður fræðasviðs fjölskylduhjúkrunar (Landspítali), Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og Landspítalinn.
Inngangur: Talið er að 20-30% ungbarna eigi við svefnvanda að stríða. Stuðningur við fjölskyldur ungbarna með svefnvanda er mikilvægur því eitt af mikilvægustu þroskaverkefnum ungbarna er að þroska með sér ákveðna líkamsreglu. Lítið er vitið um árangur af þeirri þjónustu sem foreldra þessara barna fá. Markmiðið var að skoða ávinning af hjúkrunarmeðferð tengt svefnvanda barna á lífsgæði fjölskyldunnar, líðan, viðhorf og upplifaðan stuðning meðal foreldra barnanna.
Efniviður: Þróuð var hjúkrunarmeðferð „Bættur Svefn – Betri Líðan“, fyrir fjölskyldur í ung-og smábarnavernd innan HH. Þátttakendur voru 35 fjölskyldur en 6 reyndir hjúkrunarfræðingar frá 6 heilsugæslustöðvum buðu upp á meðferðina. Hjúkrunarfræðingarnir fengu kennslu, þjálfun og handleiðslu í starfi. Þeim fjölskyldum sem tóku þátt var boðið upp á tvö meðferðarsamtöl ásamt einni símaeftirfylgd (á 3-4 vikna tímabil). Foreldrar svöruðu spurningalistum rafrænt, bæði fyrir og 7-10 dögum eftir meðferð árið 2017. Hugmyndafræði námskeiðsins var; að hvert barn er einstakt, mikilvægi einstaklinghæfðar fjölskyldumiðaðrar þjónustu og virka samvinnu hjúkrunarfræðinga og skjólstæðinga ásamt eflingu foreldra í foreldrahlutverki.
Niðurstöður: Megin niðurstöður voru að mæður upplifðu marktækt meiri stuðning frá hjúkrunarfræðingum eftir meðferð en fyrir. Líkamleg líðan þeirra varð marktækt betri. Viðhorf mæðra til svefn barnsins varð einnig marktækt jákvæðari eftir meðferðina. Sýnilegur munur til batnaðar sást hjá feðrum eftir meðferð, en hann var ekki marktækur. Svefn barnanna batnaði marktækt eftir meðferð, þau sváfu lengur, vöknuðu sjaldnar á næturnar og sjálfhuggunarhæfileiki þeirra batnaði.
Ályktanir: Mikilvægt er að miðla þekkingu og styrkja fyrsta stigs þjónustu innan heilbrigðiskerfisins. Ómeðhöndlaður svefnvandi hjá ungbörnum getur haft langtíma áhrif bæði á barnið og foreldra þess.