Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Algengi augnþurrks meðal sjúklinga á bráðalyflækningadeild Landspítala

Aðalhöfundur: Helga Rut Steinsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Landspítali

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Freyja Jónsdóttir, Landspítali og Lyfjafræðideild Háskóla Íslands. Björn Guðbjörnsson, Landspítali og Læknisfræðideild Háskóla Íslands, Gunnar Már Zoega Landspítali og Háskóli Íslands.

Inngangur: Augnþurrkur er algengt fyrirbæri, sérlega meðal eldri einstaklinga. Aðalorsök augnþurrks er skert gæði tárafilmu vegna skorts af tárum eða uppgufun tára, en jafnframt geta mörg altæk lyf valdið augnþurrki, t.d. andkólínvirk lyf. Markmið rannsóknarinnar var að kanna algengi augnþurrks meðal sjúklinga á bráðalyflækningadeild Landspítalans, og að meta hvort algengi augnþurrks sé hærra meðal sjúklinga á fjöllyfjameðferð. Einnig voru könnuð tengsl við aldur, kyn og sjúkdómaflokka.

Aðferðir: Framskyggn lýsandi rannsókn meðal einstaklinga á aldursbilinu 18-85 ára á bráðalyflækningardeild LSH. Rannsóknargögn samanstóðu af stöðluðum heilsufarsupplýsingum úr sjúkraskrám, ásamt upplýsingum um lyfjanotkun sjúklinga. Staðlaðir spurningalistar með tilliti til einkenna augnþurrks (OSDI) og sex spurningar til greiningar á Sjögrens heilkenni voru lagðir fyrir þátttakendur rannsóknarinnar í stöðluðu viðtali. Schirmer-I próf var framkvæmt til mats á táraframleiðslu.

Niðurstöður: 100 sjúklingar, 66 ± 14 ára, tóku þátt í rannsókninni (53% konur), en 12 sjúklingar voru útilokaðir vegna óáreiðanlegs Schirmer-I prófs. 51,2% sjúklinga upplifði einkenni augnþurrks samkvæmt OSDI spurningalista og 57,9% sjúklinga var með óeðlilegt Schirmer-I próf. Algengi augnþurrks meðal sjúklinga á fjöllyfjameðferð var hærra samanborið við sjúklinga sem ekki voru á fjöllyfjameðferð (61% vs 36,4%). Enn fremur var algengi augnþurrks hærra meðal eldri einstaklinga (≥50 ára) (59,7% vs 40,3%) og kvenna (60,4% vs 55%).

Ályktun: Algengi augnþurrks er hátt á bráðalyflækningadeild Landspítala. Sjúklingar sem nota lyf að staðaldri eru líklegri til þess að upplifa einkenni augn- og munnþurrks. Mikilvægt er að huga að þessum einkennum meðan á dvöl sjúklinga á sjúkrahúsum varir.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.