Aðalhöfundur: Gunnhildur Gunnarsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Sálfræðideild Háskóla Íslands
Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Dagný Hallsdóttir, Sálfræðideild Háskóla Íslands. Zuilma Gabríela Sigurðardóttir, Sálfræðideild Háskóla Íslands.
Inngangur: Stýrð kennsla Engelmann (e. Direct Instruction) er raunprófuð kennsluaðferð sem er ætlað að bæta færni barna, t.d. í lestri. Aðferðin hefur verið rannsökuð mikið og sýna rannsóknir endurtekið að hún er mjög áhrifarík. Hún byggir á því að kenna nemendum samkvæmt handriti og að stjórn sé höfð á öllum sviðum kennslunnar niður í minnsta smáatriði. Lögð er áhersla á að ná grunnfærni á einhverju sviði en síðan má yfirfæra þá þekkingu í víðara samhengi. Fimiþjálfun (e. precision teaching) er önnur raunprófuð kennsluaðferð en með henni á að þjálfa fima frammistöðu barna í tilteknu námsefni þannig að hún sé örugg, villulaus og hröð.
Aðferð: Markmið þessarar rannsóknar var að nota aðferðir stýrðrar kennslu og fimiþjálfunar til að þjálfa lestrarfærni 10 ára drengs með athyglisbrest og almenna námsörðugleika. Þátttakandinn er nemandi í grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu og var valinn af hentugleika. Kenndir voru 13 íslenskir lágstafir, sem nemandinn var ekki með fullkomna færni í. Hann hafði áður tekið þátt í svipaðri rannsókn og niðurstöður hennar sýndu að kennslan leiddi til framfara hjá honum.
Niðurstöður: Kennsla stóð yfir í um sex vikur og nemandinn tók framförum í að hljóða tíu af þessum þrettán stöfum á meðan hinir þrír stóðu í stað. Einnig tók nemandinn framförum í því að lesa rétt tveggja til fimm stafa orð.
Ályktanir: Aðferðirnar hentuðu nemandanum vel og hver og ein kennslustund var aðlöguð að hans færni. Nemandinn tók miklum framförum í hljóðun stafanna sem og í lestri 2-5 stafa orða.