Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Aðgerðir til varnar flugeldamengunar

Aðalhöfundur: Hrund Andradottir
Vinnustaður eða stofnun: Háskóli Íslands

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Þröstur Þorsteinsson, Háskóli Íslands. Ragna Benedikta Garðarsdóttir, Háskóli Íslands.

Inngangur: Loft- og hávaðamengun vegna óheftrar notkunar á flugeldum um áramót veldur vanlíðan hjá viðkvæmum einstaklingum og bráðaheilsueinkennum hjá þeim allra viðkvæmustu. Markmið þessarar rannsóknar var að skilja betur innkaup Íslendinga á flugeldum og koma með tillögur til varnar flugeldamengunar.

Efniviður og aðferðir: Rýnt var í innflutningsgögn á flugeldum á Norðurlöndunum. Framkvæmd var heimildarýni í reynslu þjóða af aðgerðum til að sporna við flugeldamengun. Skoðað var regluverk um heilsuspillandi neysluvörur og viðskiptahætti.  Til hliðsjónar voru hafðar viðhorfsrannsóknir um afstöðu almennings til flugeldamengunar og aðgerða gegn henni.

Niðurstöður: Flugeldainnflutningur jókst á Norðurlöndunum í aðdraganda aldamótanna 2000. Ísland flytur mest magn inn á höfðatölu og hefur það þrefalldast síðan 1900-1995. Reynsla Kínverja er að takmarka tíma og staði á almenningsnotkun á flugeldum hefur ekki nægt til að halda svifryk undir heilsuverndarmörkum á nýarsnótt.  Mestur árangur náðist í suður Kína þar sem almenn notkun flugelda var bönnuð og teknar voru upp ljósa eða flugeldasýningar. Mikilvægt er að viðhalda upplýsingagjöf og fræðslu til almennings samhliða skerðingum á aðgengi.

Ályktanir: Áhrifaríkasta leiðin til að viðhalda loftgæðum er að draga úr magni flugelda í umferð, t.d. með að  takmarka magn innfluttra flugelda til Íslands;  eða banna almenna notkun á flugeldum í 3. flokki. Jafnframt er mikilvægt að endurskoða reglur um sölu og auglýsingar og halda fræðslu um skaðsemi flugelda líkt og kemur fram í lögum um tóbaksvarnir; í lögum um vernd barna gegn ótilhlýðilegum auglýsingum og lögum um bann við óréttmætum viðskiptaháttum.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.