Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Eðlilegar og eftirmálalausar fæðingar á Íslandi á árunum 1999-2018

Aðalhöfundur: Hildur Holgersdottir
Vinnustaður eða stofnun: Háskóli Íslands

Meðhöfundur, stofnun eða fyrirtæki:
Emma Marie Swift, Háskóli Íslands.

Bakgrunnur: Heilsa mæðra og barna eftir fæðingu er mikilvægur gæðavísir í barneignaþjónustu. Rannsóknir síðastliðinna ára hafa sýnt fram á aukningu á ákveðnum inngripum sem skipta máli varðandi heilsu mæðra og nýbura. Kallað hefur verið eftir því að lönd skoði einnig eðlilegar fæðingar og útkomur fæðinga með heildrænum hætti til þess að gefa betri mynd af þeim breytingum sem hafa orðið.

Tilgangur: Að kanna breytingar á tíðni eðlilegra og eftirmálalausra fæðinga á Íslandi á árunum 1999-2018.

Aðferð: Rannsóknin er lýðgrunduð gagnagrunnsrannsókn. Gögnin voru fengin úr fæðingarskrá Íslands. Skilgreindar voru tvær útkomubreytur, eðlileg fæðing var skilgreind sem fæðing sem inniheldur ekki framköllun, örvun, epidural deyfingu, áhaldafæðingu, keisaraskurð eða spangarskurð. Eftirmálalaus fæðing var skilgreind sem: Ekki keisaraskurður, áhaldafæðing, spangarskurður, alvarleg spangarrifa, blæðing eftir fæðingu, andvana fæðing, 5 mín Apgar <7 né vökudeildarinnlögn. Tíðni útkomubreytanna var lýst yfir tímabilið sem heild og lagskipt eftir bakgrunnsþáttum kvennanna.

Niðurstöður: Eðlilegum fæðingum fækkaði úr 57,5% árið 1999 í 34,9% árið 2018. Fækkun á tíðni eðlilegra fæðinga mátti helst sjá meðal kvenna 40 ára og eldri og þeirra sem gengu 42 vikur eða lengur. Eftirmálalausum fæðingum fækkaði eða úr 68,8% árið 1999 í 59,2% árið 2018. Helsta breytingin sem var á tímabilinu var aukin blæðingartíðni. Eftirmálalausum fæðingum fækkaði helst hjá 40 ára og eldri, hjá þeim sem gengu <37 vikur eða ≥ 42 vikur.

Ályktanir: Eðlilegum og eftirmálalausum fæðingum hefur fækkað á rannsóknartímabilinu sem er í takt við fyrri rannsóknir. Þessi breyting virðist helst skýrast af mikilli aukningu á epidural deyfingu, framköllun fæðingar og blæðingu eftir fæðingu.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.