Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Ákvarðanataka og virðing í meðgönguvernd -lýsandi þversniðsrannsókn

Aðalhöfundur: Hafrós Lind Asdisardottir
Vinnustaður eða stofnun: Hjúkrunarfræðideild, Háskóli Íslands

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Emma Marie Swift, Hjúkrunarfræðideild, Háskóli Íslands.

Inngangur: Lykilþáttur í vandaðri umönnun kvenna í barneignarferlinu er að þær upplifi virðingu og sjálfsöryggi í samskiptum við heilbrigðisstarfsmenn og séu vel upplýstar um alla meðferð og valkosti. Alþjóðlegar heilbrigðisstofnanir leggja áherslu á mikilvægi viðræðna af virðingu og þátttöku skjólstæðinga í ákvarðanatöku á meðan á meðgönguvernd stendur. Það hefur þó lítið verið rannsakað á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Spurningalisti sem metur upplifun af virðingu með The Mothers on Respect (MORi) og ákvarðanatöku með The Mother‘s Autonomy in Decision Making (MADM) var þýddur yfir á íslensku með bakþýðingaraðferð. Spurningalistinn var forprófaður (N=10). Gagnasöfnun fór svo fram með snjóboltaaðferð á netinu 23. október til 13. nóvember 2020. Þátttakendur rannsóknar voru 1070 konur sem höfðu fætt barn á Íslandi eftir árið 2015. Notuð var lýsandi og greinandi tölfræði.

Niðurstöður: Í MORi mælitækinu fengu 874 þátttakendur há stig (67-84) og þrír þátttakendur mjög lág stig (14-31). Það voru 19,0% þátttakenda sem töldu sig ekki geta neitað umönnun. Í MADM mælitækinu fengu 547 þátttakendur há stig (34-42) en 67 þátttakendur mjög lág stig (7-15). Alls 60,0% þátttakenda töldu að ljósmóðir/læknir hafi útskýrt kosti/ókosti allra möguleika í umönnun. Niðurstöður bentu til að konur á Íslandi upplifðu mikla virðingu í samskiptum við heilbrigðisstarfsfólk en aðeins helmingur upplifði mikið sjálfræði í ákvarðanatöku.

Ályktanir: Niðurstöður erlendra rannsókna sýna svipaðar niðurstöður varðandi virðingu. Samanborið við erlendar rannsóknir upplifa konur á Íslandi minna sjálfræði í ákvarðanatöku. Niðurstöður benda til að skoða þarf betur sjálfræði í ákvarðanatöku og gefur hugmyndir hvaða þætti mætti rannsaka betur í því samhengi, svo sem tímalengd í meðgönguvernd.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.