Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Áhrif þess að taka vef úr semitendinosus á þverskurðarflatarmál vöðvans og bicep femoris

Aðalhöfundur: Andrea Þórey Hjaltadóttir
Vinnustaður eða stofnun: Háskóli Íslands, Námsbraut í sjúkraþjálfun, Rannsóknastofa í hreyfivísindum

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Kristín Briem, Háskóli Íslands, Námsbraut í sjúkraþjálfun, Rannsóknastofa í hreyfivísindum.

Inngangur: Slit á fremra krossbandi (FK) er vel þekkt meðal íþróttafólks og stór hluti gengst undir aðgerð þar liðbandið er endurgert (ACLR), oft með vef úr sin M.Semitendinosus (ST). Flestar rannsóknir sem meta afleiðingar aðgerðarinnar hafa notast við segulómun eða tölvusneiðmynd. Ómskoðun er í auknu mæli notuð af sjúkraþjálfurum til að greina ýmis meiðsli á stoðkerfi eða afleiðingar eftir áverka, t.d. þverskurðarflatarmál (CSA) vöðvahópa.

Markmið rannsóknarinnar var annars vegar að meta CSA langa höfuðs M.Biceps Femoris (BFLH) og ST meðal einstaklinga sem höfðu undirgengist endurgerð með vef úr ST í öðru hné; hvort hlutfallslegur munur fyndist á þessum vöðvum milli hægra og vinstra læris meðal þátttakenda þessa hóps og samanburðarhóps sem ekki hafði sögu um hnéáverka né aðra stóra áverka á ganglimum. Hins vegar að meta áreiðanleika óreyndra matsmanna með klíníska nálgun í huga, hvort óreyndir matsmenn gætu nýtt sér ómskoðun til að meta vöða og sinar með lágmarksþjálfun.

Aðferð: Í rannsóknarhópi voru 18 þátttakendur, á aldrinum 18-55 ára, með sögu um slit á FK og endurgerð með vef úr ST. Í samanburðarhópi voru 10 þátttakendur, á aldrinum 21-32 ára, sem höfðu enga sögu um meiðsli eða stærri áverka á ganglimum. Framkvæmd var ómskoðun á aftanlærum beggja fótleggja og CSA fyrir ST og BFLH mælt við 30% og 70% af lengd vöðvans. Myndirnar voru vistaðar og síðar mældar í ómtækinu sjálfu, gögnin síðan færð yfir í excel og tölfræðiúrvinnsla var gerð í Jamovi með fjölþátta dreifnigreiningu.

Niðurstöður: Tölfræðilega marktæk þrívíð víxlhrif fundust fyrir hóp, fótlegg og vöðva (p=<,001) sem skýrist af því að marktækur munur var á CSA ST á milli meidda og ómeidda fótleggs við báðar staðsetningar hjá rannsóknarhóp á meðan enginn munur var á milli fótleggja í samanburðarhópnum. Áreiðanleiki milli tveggja óreyndra matsmanna reyndist góður þar sem ICC = 0,997.

Ályktun: Það að taka vef úr ST til endurgerðar nýs liðband eftir slit á FK hefur mest áhrif á CSA við distal enda vöðvans, á meðan lítil sem engin aukning kemur á móti hjá BFLH samanborið við ómeidda fótlegginn. Sértæk íhlutun í endurhæfingu eftir ACLR gæti dregið úr þessum afleiðingum.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.