Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Vannotkun heilbrigðisþjónustu meðal Íslendinga

Rúnar Vilhjálmsson

Inngangur
Jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu er megin markmið í félagslegum heilbrigðiskerfum eins og því íslenska. Fyrri innlendar rannsóknir benda til að talsverður munur sé á aðgengi einstaklinga og hópa að heilbrigðisþjónustunni. Markmið rannsóknarinnar var að kortleggja frestun læknisþjónustu í einstökum samfélagshópum fullorðinna Íslendinga.
Efniviður og aðferðir.
Byggt er á niðurstöðum úr úrtakskönnun um heilbrigðismál meðal Íslendinga 18 ára og eldri sem fram fór vorið 2023. Þátttakendur voru alls 5482 og heimtur tæp 50%. Í þessari rannsókn, eins og mörgum fyrri rannsóknum, var eftirfarandi spurning lögð fyrir þátttakendur: Þurftir þú að fara til læknis einhvern tímann á síðustu 6 mánuðum, en hættir við það eða frestaðir því? Svör þátttakenda voru greind eftir samfélagshópum, með hjálp krosstöflugreiningar og lógistískrar aðhvarfsgreiningar.
Niðurstöður.
Yngri fullorðnir, konur, einhleypir, einstæðir foreldrar, lágtekjufólk, öryrkjar, og þeir sem höfðu haft mikil útgjöld vegna heilbrigðisþjónustunnar, frestuðu læknisþjónustu oftar en aðrir. Hæst frestunarhlutföll voru í hópum lágtekjufólks, öryrkja og þeirra sem höfðu haft há heilbrigðisútgjöld.
Ályktanir.
Umtalsverður hópur einstaklinga hérlendis frestar læknisheimsókn sem þörf er talin fyrir. Þetta á ekki síst við um öryrkja, lágtekjufólk og fólk með umtalsverða útgjaldabyrði vegna heilbrigðisþjónustunnar. Endurskoða þyrfti reglur um kostnaðarþátttöku sjúklinga og reglur um endurgreiðslu mikils þjónustukostnaðar sjúklinga.

 

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.