Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Þegar eðlileg fæðing verður áhættufæðing. Tilfella-viðmiðarannsókn á ástæðum og forspárþáttum endurflokkunar

Ína Sigrún Rúnarsdóttir, Anna Sigríður Vernharðsdóttir and Berglind Hálfdánsdóttir

Inngangur: Rannsóknir hafa gefið til kynna að tíðni inngripa og fylgikvilla í fæðingum meðal kvenna án áhættuþátta sé hærri á þverfræðilegum fæðingardeildum en á ljósmæðrastýrðum einingum eða í heimafæðingum. Árið 2018 var sett fram heilsufarsflokkunarkerfi á fæðingarvakt Landspítala sem gefur starfsfólki færi á að greina ólíkar þjónustuþarfir kvenna út frá heilsufari og áhættu. Markmið rannsóknarinnar var að kanna ástæður endurflokkunar hjá konum sem teljast án áhættuþátta við komu á fæðingarvakt og greina mögulega forspárþætti.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er tilfella-viðmiðarannsókn þar sem unnið var með gögn úr rafrænni fæðingarskráningu og heilsugátt Landspítala um allar konur sem fæddu á fæðingarvakt Landspítala 9. maí 2017 – 8. maí 2018 og voru án áhættuþátta við komu, alls 1727 konur. Gögn voru greind með kí-kvaðratprófum, t-prófum og aðhvarfsgreiningu.
Niðurstöður: Niðurstöður gefa til kynna að algengustu ástæður endurflokkunar séu utanbastsdeyfing, framköllun fæðingar og blæðing eftir fæðingu og að ýmsar bakgrunnsbreytur kvenna séu ólíkar í hópnum sem endurflokkaðist, miðað við hópinn sem endurflokkaðist ekki í fæðingarferlinu. Þegar leiðrétt var fyrir áhrifum bakgrunnsbreyta í aðhvarfsgreiningu kom í ljós að hár líkamsþyngdarstuðull, meðgöngulengd nálægt 37 eða 42 vikum, aukin þyngd barns og búseta utan höfuðborgarsvæðisins tengdust auknum líkum á endurflokkun.
Ályktanir: Ný þekking getur nýst til að styðja við frekari þróun þjónustu á fæðingarvakt Landspítala og gefið auknar upplýsingar fyrir fæðingarþjónustu utan sjúkrahúsa. Þekking á þáttum sem breyta þjónustuþörf kvenna og kalla á flutning á hærra þjónustustig getur skapað grundvöll fyrir markvissari þróun á þeirri þjónustu sem er veitt í hverju tilfelli fyrir sig.

 

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.