Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Reynsla eldra fólks af endurteknum byltum: Eigindleg rannsókn

Sólveig Ása Árnadóttir, Bergrún Gestsdóttir and Lilja Dögg Erlingsdóttir

Inngangur: Þrátt fyrir viðamiklar rannsóknir á byltum og þróun byltuvarna, detta árlega um 30% eldri einstaklinga og um helmingur þeirra dettur endurtekið. Kallað er eftir auknu samráði og að hlustað sé eftir óskum og þörfum eldra fólks við þróun byltuvarna. Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á reynslu eldri einstaklinga, sem búa heima, af endurteknum byltum.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var eigindleg og fyrirbærafræðileg. Hálfstöðluð viðtöl voru tekin við sex konur og níu karla á aldrinum 70 til 91 árs. Öll höfðu þau reynslu af endurteknum byltum. Viðtölin voru afrituð, kóðuð og þemagreind eftir kyni.
Niðurstöður: Þrátt fyrir ólíkan bakgrunn þátttakenda komu fram þemu sem einkenndu reynslu þessara tveggja hópa. Meðal kvennanna voru það þemu sem tengdust óöryggi þeirra, óstöðugleika og áfalli sem þær urðu fyrir við bylturnar. „Svo var bara allt í einu kippt undan mér fæti‘‘ endurspeglaði sameiginlega reynslu kvennanna. Hjá körlunum voru það þemu sem tengdust aðdraganda og afleiðingum bylta, sjúkraþjálfun í kjölfar byltu, stuðnings frá aðstandendum og nærumhverfi, og að lokum ýmsum persónutengdum þáttum. „Það er sko ekkert mál að detta, en það er að standa upp aftur“ lýsti vel sameiginlegri reynslu karlanna.
Ályktanir: Niðurstöðurnar geta nýst til að byggja undir frekari rannsóknir og efla persónumiðaða nálgun í byltuvörnum þar sem meðal annars er tekið mið af ólíkum þörfum kynja. Leggja þarf áherslu á leiðir til að draga úr byltubeyg meðal eldri kvenna, efla sjálfsbjargargetu þeirra og líkamlega virkni. Opna þarf á umræðu um byltur meðal eldri karla og efla fræðslu til þeirra.

 

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.