Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Dagleg hreyfing eldra fólks og byltusaga á liðnu ári: Þversniðsrannsókn

Sædís Friðriksdóttir, Árún K. Sigurðardóttir and Sólveig Á. Árnadóttir

Inngangur: Markmið verkefnisins var að rannsaka tengsl á milli daglegrar hreyfingar við mismunandi aðstæður (frístundir, heimilisstörf og vinnu) og byltusögu á seinustu 12 mánuðum hjá eldri einstaklingum sem bjuggu heima. Einnig að rýna í hvort þessi tengsl héldust stöðug þegar tekið var tilliti til aldurs, kyns og búsetu þátttakenda.
Efniviður og aðferðir: Lýðgrunduð þversniðsrannsókn með 175 þátttakendum úr þéttbýli og dreifbýli á Norðurlandi. Þátttakendur voru 65-92 ára, meirihluti voru karlar (57%) sem bjuggu í þéttbýli (60%). Staðlaði spurningalistinn Physical Activity Scale for the Elderly var notaður til að meta daglega hreyfingu þátttakenda í mismunandi aðstæðum (frístundir, heimilisstörf og vinna). Upplýsingar um byltur byggðu á svörum við spurningu um hversu oft þau höfðu dottið á síðustu 12 mánuðum.
Niðurstöður: Mann-Whitney U próf sýndi að þau sem höfðu dottið endurtekið fengu marktækt fleiri stig fyrir líkamlega erfiða vinnu en aðrir þátttakendur. Fjölþátta lógístísk aðhvarfsgreining sýndi að hreyfing við heimilisstörf hafði sjálfstætt verndandi samband við byltur þar sem meiri hreyfing við heimilisstörf tengdist minni líkum á byltum. Það að búa í dreifbýli og að vera karl hafði sjálfstæð tengsl við meiri líkur á byltum, og hærri aldur hafði sjálfstætt samband við minni líkur á endurteknum byltum.
Ályktanir: Niðurstöðurnar styðja við nauðsyn persónumiðaðrar nálgunar í byltuvörnum þar sem horft er til bakgrunns einstaklinga og hvernig þau hreyfa sig í daglegu lífi. Mikilvægt er að rannsaka frekar vísbendingar um að hreyfing tengd heimilisstörfum geti dregið úr líkum á byltum og að þau sem höfðu dottið endurtekið fengu fleiri stig fyrir líkamlega vinnu.

 

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.