Höfundar:
Halla Skúladóttir, Þorlakur Karlsson, Helga Bragadóttir
Inngangur: Afleiðingar fjarvista vegna skammtímaveikinda geta verið alvarlegar því tíðar fjarvistir leiða oft til langvarandi veikindafjarvista og jafnvel örorku, en lítið sem ekkert er vitað um skammtímaveikindi starfsfólks í heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Markmið rannsóknar er að varpa ljósi á umfang skammtímaveikinda starfsfólks í hjúkrun á klínískum deildum Landspítala.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturvirk megindleg lýsandi fylgnirannsókn. Úrtak rannsóknarinnar er starfsfólk hjúkrunar á innlagnardeildum sem hafa sólarhringspláss á Landspítala árið 2019 (N = 2790).
Niðurstöður: Niðurstöður sýndu að meðaltal fjarvista vegna skammtímaveikinda var hæst á þriðjudögum (n = 2730) en lægst á laugardögum (n = 1328). Fjarvistirnar voru að meðaltali flestar í október (n = 1499) en fæstar í júlí (n = 1041). Starfsfólk sem var í 100% vinnu (n = 484) var að meðaltali oftast frá vinnu vegna skammtímaveikinda (M = 8,8, SF = 8,8) en það starfsfólk sem var í undir 20% starfshlutfalli (n = 83) var að meðaltali sjaldnast frá vinnu (M = 3,2, SF = 2,8) (p < 0,001). Hjúkrunarfræðingar og ljósmæður í starfslýsingum A, B, C (n = 514) og ráðgjafar og félagsliðar (n = 268) voru að meðaltali oftast frá vegna skammtímaveikinda (M = 6,3, SF = 7,6) og (M = 6,3, SF = 7,1) en nemar að meðaltali sjaldnast frá vinnu (M = 2,7, SF = 3,5) (p < 0,001).
Ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að fjarvistir vegna skammtímaveikinda geti tengst bakgrunnsbreytum og er full ástæða til að rannsaka hvað eykur líkurnar á eða dregur úr fjarvistum vegna skammtímaveikinda starfsfólks í heilbrigðisþjónustu.