Höfundar:
Sunna Birgisdóttir, Aðalheiður Svana Sigurðardóttir
INNGANGUR
Almenn þekking á afleiðingum fíkniefnaneyslu á tann- og munnheilsu er mikilvæg. Markmið rannsóknar var að gera fræðilegt yfirlit um áhrif og afleiðingar fíkniefnaneyslu á tann- og munnheilsu sem getur nýst fagfólki, almenningi og einstaklingum sem glíma við fíkniefnaneyslu og vita ekki áhætturnar sem fylgja neyslunni né þekkja úrræði sem þau gætu nýtt sér.
Efniviður og aðferðir: Gerð var kerfisbundin leit að vísindagreinum í fræðilegt yfirlit um tann- og munnheilsu fíkniefnaneytenda. Leitað var að ritrýndum og gagnrýndum heimildum í gagnasöfnum PubMed/Medline, Google Scholar, Web of Sience og Scopus á tímabilinu 14. til 18. mars 2022.
Niðurstöður:
Samtals 16 rannsóknir uppfylltu leitarskilyrði, niðurstöður voru flokkaðar eftir efnisinnihaldi og tegund fíkniefna. Helstu fíkniefni voru metamfetamín, ópíum, heróín og metadón sem notað er sem meðferðarúrræði. Þessi sömu efni sýndu verstu áhrif og afleiðingar á tann- og munnheilsu. Áhrifin voru að mestu leyti þau sömu hjá öllum fíkniefnum það er munnþurrkur, tannskemmdir, tapaðar tennur, fylltar tennur, tannholdsbólgur, tannsteinn, gnístur og kjálkavandamál. Afleiðingar neyslu á tann- og munnheilsu fíklanna var mismunandi eftir því hvaða efni voru tekin, hver aldur einstaklinga var, félagslegri stöðu viðkomandi, lengd neyslu og alvarleika neyslunnar.
Ályktanir:
Tegund fíkniefna, aldur notanda, lengd og umfang neyslu spilar stóran þátt í hversu alvarleg áhrif neysla hefur á tann- og munnheilsu viðkomandi. Bágborin félagsleg staða, atvinnuleysi og bágur fjárhagur getur einnig komið í veg fyrir notkun tannheilbrigðisþjónustu. Í alvarlegum tilfellum þarf að endurbyggja og laga munnhol eftir tannúrdrætti og að smíða tanngervi sem sjaldan er á færi fíkniefnaneytenda án stuðnings frá samfélaginu.