Um ráðstefnuna

19. líf- og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands

Ráðstefna Heilbrigðisvísindasviðs fer fram 3. og 4. janúar 2019 á Háskólatorgi. Þar hittast tæplega 1000 vísindamenn, sérfræðingar, kennarar, nemendur, fulltrúar fyrirtækja og almenningur og kynna sér það sem er efst á baugi í líf- og heilbrigðisvísindum á Íslandi hverju sinni.

300 rannsóknir á dagskrá

Dagskrá ráðstefnunnar er mjög fjölbreytt en alla jafna eru um 300 rannsóknir kynntar, bæði á formi erinda og veggspjalda. Viðfangsefni rannsóknannana eru af ólíkum toga og úr flestum greinum líf- og heilbrigðisvísinda. Á meðal efnisflokka má nefna: meðgöngu og fæðingu, andlega heilsu, íþróttir, næringu, tannheilsu, lyfjafræði og lífvirkni, heilbrigðisþjónustu, sameindalíffræði, ónæmisfræði og endurhæfingu. Ágrip allra rannsókna hafa verið gefin út í fylgiriti Læknablaðsins sem svo er dreift á ráðstefnunni. Ráðstefnan fer fram annað hvert ár og hefur farið fram 18. sinnum.

Áhugaverðir gestafyrirlestrar

Ráðstefnugestum hefur verið boðið að hlýða á áhugaverða gestafyrirlestra og oft hafa skapast skemmtilegar umræður að þeim loknum. Á síðustu ráðstefnu flutti Davíð Ottó Arnar, yfirlæknir hjartalækninga á Landspítala og gestaprófessor við Læknadeild, erindi um umbreytingu erfðaupplýsinga í hagnýtar klínískar upplýsingar, og Helgi Tómasson, prófessor í hagrannsóknum og tölfræði við Hagfræðideild, fjallaði um það hvernig hugtökin marktækni og p-gildi eru notuð við ályktanir í rannsóknum sem byggja á mælingum.

Opnir fyrirlestrar fyrir almenning

Á hverri ráðstefnu eru valin eitt eða tvö aðgengileg efni sem eiga erindi við samfélagið hverju sinni og almenningi er boðið að koma og hlusta á opna fyrirlestra. Á síðustu ráðstefnu hlýddu um 200 gestir á þær Ernu Magnúsdóttir, dósent í lífeinda- og líffærafræði við Læknadeild og Rögnu B. Garðarsdóttur, dósent í félagssálfræði við Sálfræðideild, á opnum fyrirlestri. Erna fjallaði um stofnfrumurannsóknir. Hún greindi meðal annars frá virkni stofnfruma í líkamanum, hvernig stofnfrumur geta nýst í meðferðar- og rannsóknarskyni og framförum í erfðarannsóknum. Ragna fjallaði um hamingju og sjálfsmynd í neyslusamfélagi nútímans. Hún greindi frá rannsóknum sínum á sálfræðilegum afleiðingum hugmyndafræði neyslusamfélags og tengslum efnishyggju við hamingju, líkamsmynd og skuldasöfnun.

Efnilegir vísindamenn verðlaunaðir

Sú hefð hefur skapast að efnilegir vísindamenn hafa verið verðlaunaðir fyrir rannsóknir sínar við slit ráðstefnunnar. Á síðustu ráðstefnu hlutu fjórir efnilegir vísindamenn peningaverðlaun fyrir rannsóknir sínar. Sjá nánar.